Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 (útgerðarfélag I).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [Y] f.h. [X ehf.], dags. 29. mars 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. mars 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [S].

Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. mars 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [S] og að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 14. febrúar 2018, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 15. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Hofsósi í Sveitarfélaginu Skagafirði en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, sbr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 1. mars 2018. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 15 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Sveitarfélagsins Skagafjarðar samkvæmt umsókn sveitarfélagsins á grundvelli reglugerðar nr. 606/2017, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2017/2018, sem komu öll í hlut byggðarlagsins Hofsóss, en einnig höfðu verið fluttar tilteknar aflaheimildir frá fyrra fiskveiðiári þannig að samtals komu til úthlutunar 34 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Sveitarfélaginu Skagafirði með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. nóvember 2017.

Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn [S] með umsókn til Fiskistofu, ódags.

Hinn 22. mars 2018 tilkynnti Fiskistofa útgerðum á Hofsósi í Sveitarfélaginu Skagafirði ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til báta í byggðarlaginu. Kæranda, [X ehf.], var tilkynnt að hafnað væri umsókn félagsins um úthlutun byggðakvóta til bátsins [S]. Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt staflið c 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 væri skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til skips að það hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi þann 1. júlí 2017. Skráður eigandi og útgerðaraðili ofangreinds skips hjá Fiskistofu hafi samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra verið með lögheimili á Sauðárkróki á þeim tíma, og því komi ekki til úthlutunar byggðakvóta til skipsins.

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 29. mars 2018, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði [Y] f.h. [X ehf.] ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. mars 2018, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [S] til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram m.a. að farið sé fram á að ráðuneytið felli úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. mars 2018, sem feli í sér að undanskilja að [S] á Hofsósi, einn báta á staðnum fái úthlutað byggðakvóta og að útgerðinni verði úthlutað byggðakvóta í samræmi við viðmiðunarreglur. Kærandi, [Y] sem sé íbúi á Hofsósi hafi stofnað útgerðina [X ehf.] í lok árs 2016, ásamt félaga sínum [A]. [A] sé með tvöfalda búsetu, annars vegar að […] og hins vegar að […]. Frá upphafi hafi útgerðin verið stofnuð til þess að gera út frá Hofsósi á grásleppu, strandveiðar og leigja veiðiheimildir. Bátur útgerðarinnar sem kærandi sé skipstjóri á, [B] sem nú heiti [S] hafi frá upphafi einungis landað á Hofsósi og séu ekki áætlanir um að það breytist. Það hafi komið verulega á óvart þegar Fiskistofa hafnaði umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til útgerðarinnar á grundvelli þess að einkahlutafélagið [X ehf.] væri skráð með póstfang á Sauðárkróki. Við stofnun félagsins hafi þeirri spurningu verið beint til endurskoðanda viðurkennds endurskoðunarfyrirtækis hvort að skráning fyrirtækisins á Sauðárkróki gæti haft áhrif á úthlutun byggðakvóta á Hofsósi og hafi hann talið að skráningin gæti ekki haft áhrif. Ef litið sé til almennra skilyrða sem fram komi í 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018, sé augljóst að [X ehf.] uppfylli öll þau skilyrði sem þar komi fram. a. Fiskiskipið [S] hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni. b. [X ehf.] hafi frá upphafi skráð fiskiskipið [B] nú [S] á Hofsósi og hafi einungis landað afla þar. c. Fiskiskipið [S] sé 50% í eigu kæranda [Y] sem hafi ávallt búið á Hofsósi og hvergi annars staðar. Ákvörðun Fiskistofu um að hafna umsókn um úthlutun byggðakvóta á grundvelli þess að félagið uppfylli ekki skilyrði c-liðar 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 sé ekki í samræmi við markmið 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Ósanngjörn túlkun á grundvelli skráningar á póstfangi einkahlutafélagsins [X ehf.] sé ekki í samræmi við heimild til lögaðila sem geri út fleiri en eitt fiskiskip, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 og vandséð að fyrrgreind túlkun standist almenna jafnræðisreglu stjórnsýslunnar. Þá verði að hafa í huga við úrlausn kærunnar að [X ehf.] myndi ekki uppfylla ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskiskipið ef til úthlutunar væri byggðakvóti fyrir Sauðárkrók.

Með bréfi, dags. 3. apríl 2018, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun, auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 21. apríl 2018, segir m.a. að Fiskistofa telji að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun, dags. 22. mars 2018. Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 segi að úthluta skuli aflamarki til fiskiskipa sem uppfylli þau skilyrði að hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, séu skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017 og séu í eigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017, miðað við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar sé gerð undantekning ef einstaklingur eða lögaðili geri út fleiri en eitt fiskiskip, sem skráð séu í fleiri en einu byggðarlagi. Í þeim tilvikum sé heimilt að úthluta aflamarki byggðarlaga til fiskiskipa sem uppfylli skilyrði a- og b-liða 1. mgr. og séu í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í öðru byggðarlagi en umsókn um byggðakvóta beinist að, ef þeir stundi einnig útgerð með skip sem skráð séu í því byggðarlagi sem þeir hafi heimilisfang í. Kærandi eigi ekki önnur skip en [S] og hafi því umsókn félagsins verið afgreidd á grundvelli 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017. Í umsókn kæranda hafi komið fram að [S] væri í eigu kæranda, [X ehf.] og að kærandi hefði skráð heimili að […] á Sauðárkróki. Fiskistofa hafi leitað staðfestingar á þessu í skipaskrá Fiskistofu og hafi skipið reynst vera í eigu félagsins. Samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra hafi félagið verið skráð að […] á Sauðárkróki 1. júlí 2017 á þeim tíma sem umsókninni hafi verið skilað. Skipið hafi því ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 og hafi umsókninni verið synjað. Fiskistofa bendi á að samkvæmt skráningu í skipaskrá Samgöngustofu séu hvorki [Y] né [A] eigendur skipsins [S]. Heimili þeirra hafi því ekki haft þýðingu við úrlausn málsins. Skráður og þinglýstur eigandi skipsins sé aðeins einn, [X ehf.], […]. Svar endurskoðanda við fyrirspurn kæranda um hvort skráning félagsins á Sauðárkróki gæti haft áhrif á úthlutun byggðakvóta á Hofsósi til bátsins geti ekki haft þýðingu við úrlausn málsins. Fiskistofa sé bundin af ákvæðum laga og almennra stjórnvaldsfyrirmæla við úrlausn mála. Stofnuninni sé óheimilt að veita leyfi eða úthluta takmörkuðum gæðum sem henni sé falið að úthluta, nema fyrir því sé lagaheimild. Rangar eða ófullnægjandi leiðbeiningar um lagaatriði sem aðilar máls hafi fengið frá þeim sérfræðingum sem þeir hafi leitað til, geti ekki gengið framar lagareglum. Fiskistofa hafni þeim málsástæðum kæranda að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við markmið 10. gr. laga nr. 116/2006, að túlkun á grundvelli skráningar á póstfangi hlutafélagsins [X ehf.] sé ekki í samræmi við heimild til lögaðila sem geri út fleiri en eitt fiskiskip, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 og að vandséð sé að túlkun á ákvæðum sem byggt sé á í ákvörðuninni standist almenna jafnræðisreglu stjórnsýslunnar. Fiskistofa bendi á að jafnræðisregla 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 feli það í sér að jafnræðis skuli gætt við afgreiðslu sambærilegra mála. Kærandi geri ekki út fleiri en eitt fiskiskip og því hafi ekki verið heimilt að afgreiða umsókn félagsins á grundvelli 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr 604/2017. Umsóknina hafi borið að afgreiða á grundvelli 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar og hafi það verið gert. Hin kærða ákvörðun byggi ekki á túlkun á 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 heldur á texta 2. málsl. c-liðar málsgreinarinnar þar sem skýrlega komi fram að með orðinu "heimilisfang" í 1. málsl. c-liðar sé átt við heimilisfang lögaðila eins og það sé skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. [S] sé í 100% eigu [X ehf.]sem skráð sé til heimilis að […]. Þá hafni Fiskistofa því að það sjónarmið geti haft þýðingu við úrlausn málsins að kærandi myndi ekki uppfylla skilyrði ákvæðis 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 til að fá úthlutað á skipið af byggðakvóta Sauðárkróks ef byggðakvóti væri þar til úthlutunar.

Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: 1) Auglýsing um úthlutun byggðakvóta af heimasíðu Fiskistofu, dags. 14. febrúar 2018. 2) Umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta, ódags. 3) Hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. mars 2018. 4) Bréf ráðuneytisins, dags. 3. apríl 2018, ásamt ljósriti af stjórnsýslukæru. 5) Yfirlit um umsækjendur um byggðakvóta Sveitarfélagsins Skagafjarðar. 6) Útprentun úr hlutafélagaskrá Creditinfo, dags. 4. apríl 2018.

Með bréfi, dags. 24. apríl 2018, sendi ráðuneytið kæranda, [X ehf.], ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 21. apríl 2018, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina. Frestur til þess var veittur til og með föstudagsins 11. maí 2018.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda vegna framangreinds bréfs.

 

 

Rökstuðningur

Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.

Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 604/2017, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2017/2018. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta en þau eru:  a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2017. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla almenn skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.

Þá koma fram í reglugerðinni ákvæði um skyldu fiskiskipa til að landa afla til vinnslu í byggðarlagi, sbr. 6. gr. o.fl.

Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 604/2017.

Ekki hafa verið sett sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Hofsósi í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 samkvæmt framangreindu ákvæði.

Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Hofsósi í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006 og ákvæðum reglugerðar nr. 604/2017.

[X ehf.], sem er einkahlutafélag og eigandi bátsins [S], var með heimilisfang að […] þann 1. júlí 2017 samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og voru því ekki uppfyllt skilyrði stafliðar c 1. gr. reglugerðar nr. 604/2017 fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [S]. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki skilyrði fyrir að fallast á kröfur kæranda í máli þessu. Einnig skal áréttað að það hefur ekki áhrif á úrlausn þessa máls hvernig eignaraðild var að einkahlutafélaginu [X ehf.] á framangreindu tímamarki en félagið sem er lögaðili er eigandi bátsins.

Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður í stjórnsýslukæru geti ekki haft áhrif á niðurstöðu þessa máls.        

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki séu skilyrði fyrir að úthluta af byggðakvóta Hofsóss í Sveitarfélaginu Skagafirði fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til bátsins [S] en samkvæmt því ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. mars 2018, um að hafna umsókn kæranda, [X ehf.], um úthlutun byggðakvóta til bátsins [S].

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. mars 2018, um að hafna umsókn kæranda, [X ehf.] um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 til [S].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum